Home » Viðburðir » Verðlaunahátíð Landsbyggðarvina í Norræna húsinu 2017 – Hagnýtur hænsnakofi hlaut 1. verðlaun

Verðlaunahátíð Landsbyggðarvina í Norræna húsinu 2017 – Hagnýtur hænsnakofi hlaut 1. verðlaun

Félagasamtökin Landsbyggðarvinir stóðu fyrir myndarlegri verðlaunahátíð í Norræna húsinu mánudaginn 29. maí. Samtökin hafa í rúman áratug staðið fyrir verkefninu „Framtíðin er núna!“ og boðið öllum grunnskólum landsins þátttöku í því. Verkefnið er tvíhliða. Fyrri hlutinn er ritgerðarsamkeppni og sá síðari hópverkefni þar sem 2 – 6 nemendur vinna við að útfæra góðar tillögur úr ritgerðarsamkeppninni. Heimabyggðin er viðfangsefni þátttakenda sem eru á aldrinum 12 – 16 ára og markmið hvers verkefnis felst í hugmyndum að betri heimabyggð, gera hana meira aðlaðandi fyrir unga fólkið til framtíðar.

Á verðlaunahátíðinni í Norræna húsinu voru flutt ávörp og tilkynnt úrslit fyrir bestu lausnirnar um betri heimabyggð. Það voru verkefni frá Grunnskólanum austan vatna og Grunnskóla Hólmavíkur sem tilnefnd voru til 1. verðlauna. Eftir að nemendur höfðu kynnt lausnir sínar tilkynnti dómnefnd um að verkefnið Hænsnakofi frá Grunnskólanum austan vatna hefði unnið þetta árið og hlotið að launum 100.000 kr verðlaun til ráðstöfunar að uppbyggjandi verkefnum eða viðburðum.

Hænsnakofinn hefur það hlutverk að sporna gegn matarsóun og auka á sjálfbærni. Nemendur, gestir og gangandi um Hofsós og nágrenni er boðið að komast í tæri við hænur. Hænurnar nærast á afgöngum sem falla til í mötuneyti og heimilisfræðistofu grunnskólans og með hitalömpum og hálfopnu útivistarsvæði fá hænurnar notið sín og verpa eggjum fyrir mötuneytið. Sem sagt sjálfbærni alla leið.

Landsbyggðarvinir hafa nú þegar sent grunnskólum landsins boð um þátttöku í verkefninu „Framtíðin er núna!“ fyrir skólaárið 2017 – 2018.

Verðlaunahafar ásamt fulltrúum Landsbyggðarvina: Ólafur Þ. Harðarson stjórnarmaður, Fríða Vala Ásbjörnsdóttir verkefnastjóri, Alma Lind Ágústdóttir frá Grunnskólanum á Hólmavík, Egill Rúnar og Ólafur Ísar Halldórssynir frá Grunnskólanum austan vatna, Katrín Jakobsdóttir stjórnarmaður og Helgi Árnason formaður Landsbyggðarvina.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *