Home » Um verkefnið Framtíðin er núna!

Um verkefnið Framtíðin er núna!

Reiknað er með, að verkefnið nái yfir heilt skólaár, þótt hægt sé að taka það sem þemaverkefni.

Verkefnið miðar að því að unga fólkið í landinu gaumgæfi eigin málefni og málefni byggðar sinnar, velti fyrir sér framtíðarmöguleikunum og geri sér grein fyrir, hvað það geti lagt af mörkum. Allt í von um að það efli bjartsýni, bæti vellíðan og styrki sjálfsmynd fólksins, og þar með framgang atvinnu- og menningarlífs á hverjum stað og samfélagsins í heild. Æskilegt er að nemendur eigi gott samstarf við eldra fólk, t.d. afa og ömmur, þegar þeir fara að vinna verkefnið.

Í verkefninu gefst unga fólkinu tækifæri til að virkja hug og hönd; koma fram með hugmyndir sínar og fylgja þeim eftir á eigin forsendum. Lögð er áhersla á að tengja saman ólíka aðila, stuðla að sýnileika heimabyggðarinnar, greina það sem gott er, halda því á lofti og vera stoltur af! Undirliggjandi markmið verkefnisins er m.a. að stuðla að því, að unga fólkið ljúki námi og síðast en ekki síst, að unga fólkið leiti aftur til heimabyggarinnar eftir að skólagöngu lýkur. Teljum við hér vera um að ræða nýja aðferð til að vekja áhuga unga fólksins á heimabyggð sinni, efla dómgreind og frumkvæði nemenda.

Að mati margra skólastjóra er verkefnið góð viðbót við hefðbundið skólanám. Þá passar verkefnið vel inn í þá nýju stefnu Menntamálarráðuneytisins í skólamálum, þar sem í nýrri skólanámsskrá er lögð áhersla á „lýðræðismenntun“ og sjálfbærni sbr. Menntun til sjálfbærrar þróunar, þ.e. að í þessu verkefni verða nemendur sjálfir að hafa frumkvæði – sem er í sjálfu sér ný þróun í hefðbundnu skólastarfi. Í venjulegu skólakerfi er meira boðið upp á,  að nemendur séu viðtakendur/þiggjendur. Farsæld til framtíðar (sjálfbær þróun) byggist – að okkar mati – meira á gagnrýnni hugsun, frumkvæði og réttri ákvörðunartöku hvers og eins.

Skólarnir, sem taka þátt í verkefninu, eru sérstaklega valdir með góða dreifingu á landsvísu í huga.  Miðað er við tvo skóla frá hverjum landshluta, og geta þátttökuskólar verið allt að 12 (að meðtöldum Vestfjörðum og stór Reykjavíkursvæðinu).

Verkefnið er tvískipt:

Fyrri hlutinn er einstaklingsvinna. Áhersla er lögð á að fá fram góðar hugmyndir sem stuðla að nýsköpun í heimabyggð, hvort sem það er á sviði velferðar og forvarna, atvinnulífs eða tekjuöflunar fyrir sveitar- eða bæjarfélagið. Þátttakendum eru gefnar frjálsar hendur með framsetningu á hugmyndum sínum en mikilvægt er að framsetningin sé skýr, skiljanleg og í stuttu máli. Reynslan sýnir, að ritgerðarformið, tvær til fjórar blaðsíður af stærðinni A-4 með leturstærðinni 14, hefur gefist vel. Einnig er unnt að senda inn góðar hugmyndir í öðru formi, til dæmis á myndböndum, er þá miðað við 10 mínútna sýningartíma, eða á talglærum, sem mega þá vera allt að 10 talsins.  Sá kennari, sem heldur utan um verkefnavinnuna í skólanum, er ábyrgðarmaður og tengiliður verkefnisstjóra.

Síðari hlutinn er hópverkefni.  Til dæmis þrír, fjórir eða fimm nemendur saman og felst í  útfærslu á bestu hugmyndum sem komu fram í fyrri hlutanum og gefa fyrirheit um betri og lífvænlegri heimabyggð. Best yrði ef næðist að framkvæma hugmyndina. Síðan velur hver skóli 1 til 3 bestu lausnir til mats fyrir dómnefnd, sem mætir á staðinn. Útfærslan má vel vera samsett úr fleiri ólíkum þáttum, t.d. tónlist, leikþætti eða fund sveitarstjórnarmanna, þar sem viðkomandi þættir tengjast ákveðinni grunnhugmynd, jafnvel með gerð myndbands til nánari skýringar eða einhver uppákoma, t.d. árshátíð eða íbúaþing, sem haldið væri bæði í gamni og alvöru, þar sem tekið væri á málum, sem efst væru á baugi eða sem væru mikilvæg fyrir viðkomandi stað. Til dæmis hvernig hægt væri að stuðla að fóksfjölgun á svæðinu. Þannig geta fleiri komið að sömu hugmynd, t.d. tveir nemendur úr 8. bekk með nemanda eða nemendum úr 10. bekk, sem e.t.v. á eða eiga hugmyndina en hafa takmarkaðan tíma til að útfæra hana en geta mögulega komið að stjórnun hugmyndarinnar að hluta til.

Verkefnið sem þemaverkefni:

Sé ætlunin að taka verkefnið sem þemaverkefni, sem stendur aðeins yfir í nokkra daga, hentar ekki  að hafa sérstaka athöfn við skil fyrri hlutans, hugmyndavinnunnar. Það þýðir ein athöfn í stað tveggja miðað við heilsársverkefni. Að öðru leyti fellur verkefnið undir sömu reglur og eiga við í síðari hlutanum. Dómnefnd reynir að mæta á staðinn, þegar kallið kemur við lok síðari hlutans!